news

Niðurstöður foreldrakönnunar Barnabóls veturinn 2018-2019

31. 05. 2019

Hjallastefnan framkvæmir reglubundið viðhorfskannanir meðal foreldra barna sem sækja skóla stefnunnar enda eru upplýsingar um viðhorf og upplifun foreldra á skólastarfinu afar mikilvægt leiðarljós í gæðastarfi Hjallastefnunnar.

Á skólaárinu 2018-2019 var könnun framkvæmd um mánaðarmótin nóvember-desember og gáfu 30 foreldrar barna á Barnabóli sér tíma til þess að svara könnuninni og kunnum við þeim bestu þakkir.

Helstu niðurstöður könnunarinnar voru eftirfarandi:

  • 93% foreldra telja að barninu líði vel í lok skóladagsins.
  • 90% foreldra telja að vel sé tekið á móti barninu í upphafi dags.
  • 93% foreldra eru ánægð með samskipti starfsfólks og barnanna í skólanum.
  • 75% foreldra telja sig geta mælt með skólanum við fjölskyldu og vini.
  • 60% foreldra telja sig fá góða úrlausn mála hjá stjórnendum skólans.
  • Foreldrar gáfu skólanum gæðaeinkuninna 7,6 af 10 mögulegum.
  • 47% foreldra kjósa fremur að hafa starfsdaga sem hluta af lengra fríi (t.d. vetrar-, sumar-, jólafríi) en að hafa starfsdaga staka daga inn á milli yfir árið.

Vegna tilraunaverkefnis Hjallastefnunnar um styttingu vinnutíma starfsmanna voru nokkrar spurningar tengdar styttingu vinnutíma. 2/3 foreldra þekkja til verkefninsins og um 40% töldu að það hefði haft jákvæð áhrif á gæði skólastarfins. Einnig var áhugavert að um 2/3 foreldra myndu sjálfir kjósa að stytta sinn vinnutíma ef þeir hefðu kost á, svo að þeir gætu varið meiri tíma með barni/börnum sínum.

Foreldrar voru að lokum beðnir um að nefna þau atriði sem þeir teldu að betur mætti fara í skólastarfinu. Þau atriði sem helst voru nefnd voru að meiri stöðugleiki mætti vera í starfsmannahaldi og að upplýsingaflæði til foreldra mætti vera betra.

Einnig gafst tækifæri fyrir foreldra að nefna það sem jákvætt er í skólastarfinu. Flestir nefndu gott starfsfólk sem sýnir börnunum mikla umhyggju og hlýju sem er sérstaklega ánægjulegt að heyra og mikilvægur þáttur í að þróa starfið áfram til enn betri vegar.

© 2016 - Karellen