Með hækkandi sól

27. 04. 2018

Gleðilegt sumar kæru vinir og vinkonur og þúsund þakkir fyrir frábært starf í vetur. Nú fer að birta til hjá okkur, síðustu vikur Áræðnilotu að renna sitt skeið og við tekur sumarstarfið um miðjan maí. Starfskonur voru í Berlín á námskeiðum og að heimsækja þýskan leikskóla þegar sumardaginn fyrsta bar að garði og því tóku þær með sér örlitla sumargjöf alla leið frá meginlandi Evrópu. Litlir sætir Berlínar-Bangsar komu með okkur og munum við afhenda þá í dag, þeir eru smáir en knáir svo þau foreldrar allra yngstu barnanna munu fá forræði yfir þeim þar til síðar. Þeir búa yfir þeim eiginleika að geta sitið á toppi blýants eða trélita og geta svo strokað út ef þess þykir þörf.

Börnin á Eldri Kjarna hafa að venju heimsótt íþróttahúsið einu sinni í viku yfir veturinn og var heimsókn vikunnar sú síðasta á þessu skólaári. Við taka Hjóladagar alla fimmtudaga og þá mega börnin koma með hjól og hjálm í leikskólann sem þau hjóla á í útihópatímanum þann daginn. Hjóladagar miðast aðallega að börnunum á Eldri Kjarna, eins og heimsóknirnar í íþróttahúsið en börnin á Yngri Kjarna halda áfram með þrautabrautirnar sínar á fimmtudögum að venju. Í vikunni var kornflexdansinn stiginn eins og vanalegt er í Áræðnilotu, það þarf hugrekki og þor til þess að dansa á hörðu kornflexinu og börnin skemmtu sér æðislega vel.

© 2016 - Karellen