Fimmtudagar eru Hreystidagar

04. 05. 2018

Sú hefð hefur haldist í Barnabóli í mörg ár að fimmtudagar skuli nýttir til hreyfingar. Þó svo að allir dagar hjá okkur séu fullir af dans, söng og margskonar hreyfingu þá er alltaf gott að eiga skipulagða stund einu sinni í viku allt árið þar sem áherslan er lögð á hreyfingu.

Við fáum að nýta frábæra aðstöðu íþróttahússins yfir veturinn og fara þá öll börnin á Eldri Kjarna saman og leika sér og læra í gegn um frábærar þrautabrautir, stöðvar og leiki. Við æfum mikilvæga hluti eins og að bíða í röð, taka tillit til vina og vinkvenna, fara eftir fyrirmælum og svo auðvitað þjálfum við grófhreyfingarnar, þolið og snerpuna.

Yngstu börnin nýta tímann á fimmtudögum í frábærar þrautabrautir þar sem áherslan er á þjálfun grófhreyfinga, kjarkæfingar og svo auðvitað gleði og gaman.

Það kemur stundum fyrir að veðrið býður ekki upp á labbitúr út í íþróttahús og þá er byggð RISA þrautabraut á Eldri Kjarnanum sem börnin spreyta sig á.

Þegar Sumardaginn fyrsta ber að garði þá höfum við þakkað fyrir afnotin af íþróttahúsinu yfir veturinn og Hjóladagar byrja í staðin. Þá mega börnin á Eldri Kjarna koma með hjól og hjálm í leikskólann og æfa sig að hjóla. Það má segja að Hjóladagarnir séu í uppáhaldi hjá mörgum börnum og sum bíða spennt allan veturinn eftir að þeir hefjist.

Hjóladagarnir lifa góðu lífi fram að sumarfríi og halda svo áfram á meðan haustið hefst og veðrið er enn til friðs. Síðustu misseri höfum við svo farið með elstu börnin í heimsókn í sund í litlum hópum á sumrin og hefur það gengið frábærlega. Þá fær hvert barn að fara einu sinni í sundlaugina með kennara og er það bæði spennandi og krefst hugrekkis.


© 2016 - Karellen